Líftæknifyrirtækið SagaNatura þróar og framleiðir íslensk fæðubótarefni úr þörungum sem eru ræktaðir í Hafnarfirði og úr lífrænni ætihvönn úr Hrísey. Fyrirtækið er starfrækt í Hafnarfirði og markaðssetur vörur sínar undir tveimur vörumerkjum; KeyNatura og SagaMedica. Upphaflega voru þessi fyrirtæki rekin sitt í hvoru lagi en SagaNatura varð til þegar fyrirtækin voru sameinuð síðastliðið sumar. Sjöfn Sigurgísladóttir, framkvæmdastjóri SagaNatura, segir að vel hafi gengið að samþætta starfsemi fyrirtækjanna og að með sameiningunni hafi náðst fram mikil stærðar- og þekkingarhagkvæmni á sviði markaðssetningar, rannsóknaog þróunar, gæðamála og á fleiri sviðum.
„Rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja getur verið ansi snúið. Það má segja að viðræður þessa tveggja félaga hafi átt rætur að rekja til sjóðsins Eyrir Invest Sprotar, sem hafði fjárfest í báðum fyrirtækjunum og er einn af eigendum SagaNatura. Með sameiningunni myndaðist mjög mikil samlegð. Við erum að vinna í því að sameina vörumerkin. Sem dæmi má nefna hönnunina á framleiðslu- og vinnslubúnaði sem þörungaræktun KeyNatura byggir á, en sú þekking skilar sér inn í framleiðslu á vörum SagaMedica.
Við sameininguna skapaðist tækifæri til mun örari vaxtar samanborið við tvö smærri fyrirtæki. SagaMedica hefur verið að framleiða mjög góðar vörur í gegnum tíðina og góður vitnisburður um það er SagaPro en viðskiptaþróunin tekur tíma sem og uppbygging á söluleiðum erlendis. Við hjá SagaNatura stefnum að því að byggja upp stórt og öflugt fyrirtæki með mikla þekkingu á sviði útflutnings á íslenskum heilsuvörum.
SagaMedica hefur þróað vörumerki sitt og viðskiptatengsl yfir langan tíma sem hjálpar nýju og smáu fyrirtæki eins og KeyNatura, sem er tiltölulega nýbúið að setja á markað sínar vörur eins og AstaSkin og Íslenskt Astaxanthin. Fyrirtækin vega því vel upp á móti hvort öðru. Það eru mörg lítil fyrirtæki sem eiga í erfiðleikum með að byggja sig upp því það vantar oft einhverja þekkingu. Vörurnar og virkni þeirra eru byggðar á umfangsmiklu rannsóknar- og þróunarstarfi og hérna byggjum við allt á vísindum – þrír starfsmenn fyrirtækisins eru með doktorspróf í matvælafræði, lífefnafræði og aðrir fjórir með masterspróf i sömu greinum auk verkfræði. Við búum því yfir mikilli þekkingu innanhúss eftir sameininguna. Uppbyggingin hefur gengið mjög vel og við finnum fyrir miklum áhuga á vörum fyrirtækisins hér heima sem og á erlendum mörkuðum. Á fyrstu árum fyrirtækisins þurftum við að sækja viðskiptavinina en svo er það mjög gott þegar maður finnur það að síminn er farinn að hringja og nýir viðskiptavinir farnir að eiga frumkvæði að samskiptum við okkur. Þetta hljómar kannski eins og smáræði en þetta er mjög stórt stökk.”
Að sögn Sjafnar hafa þeir fjárfestar sem hafa fjárfest í fyrirtækinu leikið lykilhlutverk í vexti SagaNatura.
„Það eru margir minni fjárfestar sem hafa fjárfest í okkur og nokkrir stærri eins og Eyrir Sprotar. Stuðningur Eyris skiptir okkur sérstaklega miklu máli, ekki bara vegna þess að þeir koma með fjármagn að borðinu, heldur einnig vegna þess að þeir eru fagfjárfestar sem styðja við uppbyggingu félagsins með sinni þekkingu. Þeir eru þolinmóðir og átta sig á að svona uppbygging tekur tíma.”
Selja undir eigin merkjum sem og annarra
Að sögn Sjafnar hefur mikil vöruþróun átt sér stað innan SagaNatura og hyggst fyrirtækið auka vöruúrval sitt á næstunni, bæði undir eigin merkjum sem og merkjum viðskiptavina, sem sjá þá sjálfir um sölu- og markaðssetningu á þeim vörum á erlendum mörkuðum.
„Þannig getum við stækkað hratt og þurfum ekki að fjármagna markaðssetningu og viðskiptaþróunina nema að litlu leyti sjálf. Það er mikilvægt fyrir okkur að geta stækkað hratt og því vinnum við með mismunandi smásölu- og heildsöluaðilum á hinum ýmsu mörkuðum, einnig með fleiri aðilum en einum í hverju landi, sem eru þá að selja og markaðssetja mismunandi vörur frá okkur. Ef við værum einungis að horfa á þetta út frá okkar eigin merki, þá tæki þróun og uppbygging fyrirtækisins mun lengri tíma.
Við munum halda áfram að þróa nýjar heilsuvörur úr þörungum og íslenskum jurtum en við sjáum auk þess fyrir okkur aukið vægi þörunga í matvælaframleiðslu í framtíðinni. Neyslumynstur mannkyns er að færast neðar í fæðukeðjuna og fólk er að minnka kjötneyslu sína og því þarf að finna nýjar tegundir fæðu. Það er svolítið erfitt að borða nær eingöngu grænmeti í öll mál, en með þörungunum kemur inn hafsjór af nýjum möguleikum af fæðu og mikilvægum næringarefnum. Við sjáum því fyrir okkur að koma með nýja möguleika inn á markaðinn sem eru í takt við þróun samfélagsins.”
Sótt af viðskiptablaðinu: https://www.vb.is/frettir/taekifaeri-til-orari-vaxtar-eftir-samruna/154674/